Staðfesta komu Fosu-Mensah frá United

Timothy Fosu-Mensah er mættur til Bayer Leverkusen.
Timothy Fosu-Mensah er mættur til Bayer Leverkusen. Ljósmynd/@AjaxNewsZone

Hollenski varnarmaðurinn Timothy Fosu-Mensah er genginn til liðs við þýska knattspyrnufélagið Bayer Leverkusen.

Þetta staðfesti þýska félagið á samfélagsmiðlum sínum í dag en Fosu-Mensah kemur til félagsins frá Manchester United þar sem hann hefur leikið frá árinu 2016.

Varnarmaðurinn hefur ekki átt fast sæti í liði United en samningur hans við enska félagið átti að renna út næsta sumar.

Fosu-Mensah var ekki tilbúinn að skrifa undir framlengingu við United og því ákvað enska félagið að selja hann til Þýskalands fyrir 1,5 milljónir punda.

Hollendingurinn lék 30 leiki fyrir United í öllum keppnum og þá á hann að baki þrjá landsleiki fyrir Holland.

mbl.is