Tottenham missteig sig gegn Fulham

Ivan Cavaleiro fagnar jöfnunarmarki sínu gegn Fulham.
Ivan Cavaleiro fagnar jöfnunarmarki sínu gegn Fulham. AFP

Ivan Cavaleiro bjargaði stigi fyrir Fulham þegar liðið heimsótti Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Tottenham Hotspur Stadium í London í kvöld.

Cavaleiro skoraði jöfnunarmark Fulham á 74. mínútu eftir frábæra sendingu Ademola Lookman.

Harry Kane kom Tottenham yfir á 25. mínútu en Tottenham fékk nokkur tækifæri til þess að bæta við mörkum áður en Fulham jafnaði metin.

Inn vildi boltinn hins vegar ekki og 1:1-jafntefli því niðurstaðan en Tottenham er í sjötta sæti deildarinnar með 30 stig eftir sautján leiki.

Fulham er áfram í átjánda sæti deildarinnar, tveimur stigum frá öruggu sæti.

mbl.is