Frestað hjá Gylfa og félögum um helgina

Aston Villa tefldi fram unglingaliði gegn Liverpool í bikarkeppninni um …
Aston Villa tefldi fram unglingaliði gegn Liverpool í bikarkeppninni um síðustu helgi vegna kórónuveirusmitanna og jafnaði óvænt í fyrri hálfleiknum. AFP

Allt útlit er fyrir að viðureign Aston Villa og Everton sem fram átti að fara í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á sunnudaginn verði frestað.

Æfingasvæði Aston Villa er ennþá lokað vegna kórónuveirusmita og í framhaldi af því hafa níu leikmanna liðsins og fimm starfsmenn verið greindir með veiruna.

Aston Villa gat ekki teflt aðalliði sínu fram gegn Liverpool í 3. umferð bikarkeppninnar síðasta föstudag þar sem það var allt í sóttkví og af sömu sökum var leik liðsins gegn Tottenham sem fram átti að fara í gærkvöld frestað.

Upphaflega átti leikur Aston Villa og Everton að fara fram á laugardaginn en hann hafði verið færður til sunnudags vegna tilfærslu á öðrum leikjum í deildinni.

Uppfært kl. 10.30
Staðfest er að leik Aston Villa og Everton hefur verið frestað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert