Af hverju ætti ég að taka ákvörðun í dag?

Jürgen Klopp sat fyrir svörum á blaðamannafundi í dag.
Jürgen Klopp sat fyrir svörum á blaðamannafundi í dag. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Englandsmeistara Liverpool, var ekki tilbúinn að svara því á blaðamannafundi í dag hvort Joel Matip, miðvörður liðsins, yrði leikfær á sunnudaginn kemur.

Liverpool tekur þá á móti Manchester United í stórleik ensku úrvalsdeildarinnar en United er með 36 stig í efsta sæti deildarinnar á meðan Liverpool er í öðru sætinu með 33 stig.

Matip hefur ekkert leikið með Liverpool síðan 27. desember þegar hann fór meiddur af velli í síðari hálfleik í 1:1-jafntefli gegn WBA í deildinni á Anfield.

Matip tognaði í nára og var hvergi sjáanlegur á æfingu Liverpool í gær en Klopp útilokar ekki að Kamerúninn verði með á sunnudaginn í toppslagnum gegn United.

„Joel er mjög nálægt því að snúa aftur á völlinn,“ sagði Klopp í samtali við fjölmiðlamenn.

„Finnst ykkur það skynsamlegt hjá mér að segja ykkur að hann muni spila þegar hann hefur ekkert æft með liðinu? Það er dagurinn í dag, dagurinn á morgun og laugardagurinn líka. Við höfum tíma.

Ég þarf að sjá hvernig hann stendur sig á æfingu og hvernig hann bregst við því að hafa ekki spilað í tæpar þrjár vikur. Við sjáum hvernig næstu dagar þróast en hann er ekki eini miðvörður okkar og við erum með leikmenn sem geta leyst hann af hólmi.

Henderson er mjög mikilvægur leikmaður fyrir okkur líka en hann er mikilvægastur á miðsvæðinu, ekki í öftustu víglínu. Við þurfum að bíða og sjá hvernig næstu dagar verða á æfingasvæðinu.

Af hverju ætti ég að taka ákvörðun í dag um það hvernig liðið verður á sunnudaginn?“ bætti Klopp við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert