Verður ekki áfram í London

Gareth Bale hefur ekki staðið undir þeim væntingum sem gerðar …
Gareth Bale hefur ekki staðið undir þeim væntingum sem gerðar voru til hans hjá Tottenham. AFP

Gareth Bale verður ekki áfram í herbúðum enska knattspyrnufélagsins Tottenham á næstu leiktíð.

Það er Times sem greinir frá þessu en Bale gekk til liðs við Tottenahm frá Real Madrid á láni fyrir keppnistímabilið.

Bale hefur ekki staðið undir þeim væntingum sem gerðar voru til hans í upphafi tímabils og hefur aðeins leikið átta leiki í öllum keppnum á leiktíðinni.

Þá hefur hann aðeins byrjað einn leik í ensku úrvalsdeildinni þar sem honum hefur tekist að skora eitt mark.

Bale gekk til liðs við Real Madrid frá Tottenham sumarið 2013 en hann hefur ekki átt fast sæti í liði Spánarmeistararanna undanfarin tímabil. 

Meiðsli hafa sett stórt strik í reikninginn hjá Bale á undanförnum árum en samningur hans við Real Madrid rennur út sumarið 2022.

Zinedine Zidane, knattspyrnustjóri Real Madrid, hefur engan áhuga á því að nota Bale og því má búast við því að spænska félagið reyni að losa sig við hann næsta sumar.

mbl.is