Farinn eftir þrjá leiki á tíu árum

Lucas Piazon var á mála hjá Chelsea í tíu ár.
Lucas Piazon var á mála hjá Chelsea í tíu ár. AFP

Knattspyrnumaðurinn Lucas Piazon er farinn frá enska félaginu Chelsea eftir tíu ára dvöl hjá Lundúnaliðinu en enginn leikmaður liðsins hefur verið á mála þar lengur.

Þrátt fyrir það hafa félagsskipti Piazons til portúgalska liðsins Braga ekki vakið neina sérstaka athygli. Brasilíumaðurinn kom til Chelsea árið 2011 og eins og fyrr segir hefur enginn núverandi leikmaður liðsins verið hjá félaginu lengur. Miðjumaðurinn, sem er orðinn 26 ára gamall, náði hins vegar aðeins að spila þrjá leiki fyrir Chelsea á þessum tíma en hann var lánaður frá félaginu alls átta sinnum.

Piazon var valinn besti ungi leikmaður félagsins árið 2012 eftir að hafa átt stóran þátt í bikarmeistaratitli unglingaliðsins og spilaði hann alla þrjá leiki sína fyrir aðallið Chelsea tímabilið 2012-13, einn í ensku úrvalsdeildinni og tvo í deildabikarnum. Eftir það tóku við átta lánssamningar á átta árum hjá liðum í ensku B-deildinni, á Spáni, Hollandi og nú síðast í Portúgal þar sem hann er nú orðinn leikmaður Braga en hann skrifaði undir fjögurra ára samning við félagið sem situr í 4. sæti efstu deildar þar í landi.

mbl.is