Fyrsti sigurinn í tíu leikjum kom gegn Leeds

Neal Maupay fagnar sigurmarki sínu á Elland Road í dag.
Neal Maupay fagnar sigurmarki sínu á Elland Road í dag. AFP

Tveimur leikjum var að ljúka í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu rétt í þessu en Brighton sótti þrjú stig til Leeds með 1:0-sigri á Elland Road og West Ham hafði betur gegn Burnley á heimavelli með sömu markatölu, 1:0.

Nýliðar Leeds hafa oft leikið vel í vetur og unnu til að mynda magnaðan 5:0-sigur á West Brom í þarsíðustu umferð en þeir voru arfaslakir í dag gegn Brighton liði sem var ekki búið að vinna í síðustu níu deildarleikjum sínum.

Franski framherjinn Neal Maupay kom gestunum yfir á 16. mínútu eftir laglegt liðsspil. Alexis Mac Allister stakk þá boltanum inn í teig á Leandro Trossard og kom sér svo sjálfur inn í teig og eftir þríhyrningsspil þeirra lagði Allister boltann fyrir Maupay sem skoraði fyrir galopnu marki. Markið reyndist svo sigurmark leiksins er heimamenn voru langt frá sínu besta og gestirnir skipulagðir í þokkabót. Fyrsta marktilraun Leeds sem rataði á markið kom á 63. mínútu og þrátt fyrir að hafa boltann um 65% af tímanum reyndi ekkert ógurlega á Robert Sanchez í marki Brighton.

Með sigrinum fer Brighton upp í 16. sætið og er nú með 17 stig, fimm stigum frá fallsæti. Leeds er í 12. sætinu með 23.

Þá vann West Ham 1:0-heimasigur á Burnley þar sem Michail Antonio skoraði sigurmarkið á níundu mínutu leiksins. Jóhann Berg Guðmundsson var í byrjunarliði Burnley en tekinn af velli í hálfleik. West Ham er í 10. sæti með 26 stig en Burnley í 17. með 16 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert