Leicester komið upp fyrir Liverpool

James Maddison fagnar eftir að hafa skorað fyrir Leicester í …
James Maddison fagnar eftir að hafa skorað fyrir Leicester í kvöld. AFP

Leicester komst í kvöld upp fyrir Liverpool og í annað sæti ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu með því að sigra Southampton, 2:0, á heimavelli sínum, King Power-leikvanginum.

James Maddison skoraði fyrra markið á 37. mínútu eftir sendingu frá Youri Tielemans og Harvey Barnes innsiglaði sigurinn í uppbótatímanum, aftur eftir stoðsendingu frá Tielemans.

Manchester United er með 36 stig, Leicester 35, Liverpool 33, Manchester City 32 og Everton 32 stig en á morgun mætast Liverpool og Manchester United í sannkölluðum toppslag klukkan 16.30 á Anfield í Liverpool. Manchester City á síðan heimaleik við Crystal Palace um kvöldið og gæti því verið komið í annað sæti deildarinnar að þessari umferð lokinni.

Southampton er í áttunda sæti með 29 stig, jafnmörg og Chelsea og West Ham sem eru sæti ofar og neðar.

mbl.is