Loks­ins á för­um frá Arsenal

Mesut Özil.
Mesut Özil. AFP

Knattspyrnumaðurinn Mesut Özil hefur komist að samkomulagi við Arsenal um að rifta samningi sínum við félagið áður en hann fer á frjálsri sölu til Fenerbache í Tyrklandi en miðjumaðurinn er launahæsti leikmaður Lundúnaliðsins.

Þrátt fyrir að vera sá launahæsti hefur Özil, 32 ára, ekki spilað fyrir Arsenal síðan í mars á síðasta ári en hann hefur verið úti í kuldanum hjá Mikel Arteta, stjóra liðsins. Samningur hans á að gilda út þessa leiktíð en samkvæmt heimildum Sky Sports hefur Özil komist að samkomulagi um að rifta samningi núna gegn því að Arsenal þurfi ekki að greiða hann upp að fullu.

Fyrr í vikunni svaraði Özil spurningum stuðningsmanna á samfélagsmiðlinum twitter og sagði þar m.a.: „Ég ólst upp sem Fenerbache-aðdáandi í Þýskalandi. Fenerbache er eins og Real Madríd á Spáni; stærsta liðið í landinu mínu,“ sagði Özil sem ólst upp í Þýskalandi en er ættaður frá Tyrklandi.

Hann spilaði 254 leiki fyrir Arsenal og skoraði í þeim 44 mörk en hann kom til félagsins frá Real Madríd árið 2013.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert