Eini leikmaður United sem Anfield myndi fagna

Marcus Rashford hefur fengið mikið lof fyrir baráttu sína í …
Marcus Rashford hefur fengið mikið lof fyrir baráttu sína í vetur. AFP

Englandsmeistarar Liverpool taka á móti toppliði Manchester United á Anfield í úrvalsdeildinni í knattspyrnu í stórleik helgarinnar klukkan 16:30 og hefur Jordan Henderson, fyrirliði Liverpool, brugðið á það óvenjulega ráð að lofsyngja einn af leikmönnum United áður en erkifjendurnir mætast.

Um er að ræða Marcus Rashford, hinn unga sóknarmann United, sem hefur undanfarið ár barist fyrir réttindum barna sem lifa við erfiðar aðstæður á Bretlandseyjum. Tókst honum meðal annars að fá yfirvöld til að taka U-beygju í stefnumálum sínum og sjá til þess að ung börn fái gefins máltíð í skólanum og var Rashford í kjölfarið heiðraður af Elísabetu Bretlandsdrottningu.

„Í þetta eina skipti ætla ég að leggja fjandskapinn til hliðar og hrósa leikmanni United, ég er viss um að stuðningsmennirnir styðja mig í því,“ skrifaði Henderson í leikskrá Liverpool fyrir leikinn. „Það sem Marcus hefur gert undanfarna 12 mánuði er ótrúlegt, hann hefur barist gegn barnafátækt og nýtt orðspor sitt til að hjálpa öðrum.

Andy Robertson benti á það um daginn að Marcus myndi vera fyrsti og eini leikmaður United sem áhorfendur á Anfield stæðu upp og klöppuðu fyrir. Af augljósum ástæðum getur það auðvitað aldrei gerst en ég vona að hann viti að allir hjá Liverpool bera mikla virðingu fyrir honum.“

Jordan Henderson
Jordan Henderson AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert