Pogba skaut United aftur á toppinn

Paul Pogba fagnar sigurmarki sínu í London.
Paul Pogba fagnar sigurmarki sínu í London. AFP

Paul Pogba reyndist hetja Manchester United þegar liðið heimsótti Fulham í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Craven Cottage í London í kvöld.

Leiknum lauk með 2:1-sigri United en Pogba skoraði sigurmark leiksins um miðjan síðari hálfleikinn.

Ademola Lookman kom Fulham yfir strax á 5. mínútu eftir frábæra stungusendingu André Anguissa.

Lookman slapp einn í gegn og skoraði örugglega fram hjá David de Gea í marki United og staðan orðin 1:0.

Edinson Cavani jafnaði metin fyrir United á 21. mínútu þegar hann fylgdi eftir fyrirgjöf Bruno Fernandes sem Alphonse Aréola tókst ekki að halda í marki Fulham.

Cavani gerði engin mistök og skoraði í nánast tómt markið úr markteignum og staðan því 1:1 í hálfleik.

Það var svo Paul Pogba sem tryggði United sigur með frábæru vinstrifótarskoti, rétt utan teigs, á 65. mínútu og þar við sat.

United er með 40 stig í efsta sæti deildarinnar og hefur tveggja stiga forskot á Manchester City sem á leik til góða.

Fulham er áfram í átjánda sætinu með 12 stig, fjórum stigum frá öruggu sæti.  

Fulham 1:2 Man. Utd opna loka
93. mín. Aleksandar Mitrovic (Fulham) á skalla sem fer framhjá Mitrovic mep skallan sem fer af Bailly og rétt fram hjá.
mbl.is