Fyrsta tap Liverpool á Anfield í tæp fjögur ár

Burnley-menn fagna sigurmarkinu.
Burnley-menn fagna sigurmarkinu. AFP

Burnley varð í kvöld fyrsta liðið til að vinna Liverpool á Anfield í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta síðan í apríl árið 2017, en Ashley Barnes tryggði liðinu sigurinn með marki úr vítaspyrnu á 83. mínútu. 

Liverpool skapaði sér nokkur fín færi í fyrri hálfleiknum og var Divock Origi áberandi í sínum fyrsta leik í byrjunarliði í deildinni á leiktíðinni. Nick Pope í marki Burnley varði hinsvegar frá honum í nokkur skipti, en hann var iðulega vel staðsettur. 

Seinni hálfleikur spilaðist svipað og sá fyrri; Liverpool var mikið með boltann og skapaði sér fín færi en Nick Pope var vandanum vaxinn í markinu og varði nokkrum sinnum mjög vel, m.a. frá varamanninum Mo Salah um miðjan seinni hálfleik. 

Jóhann Berg Guðmundsson kom inn á sem varamaður á 65. mínútu hjá Burnley og fékk hann fínt færi á 71. mínútu en skaut rétt framhjá nærstönginni.

Rúmum tíu mínútum síðar komst Burnley yfir. Fabinho og Alisson gerðu sig seka um samskiptaleysi og Ashley Barnes nýtti sér það og komst í boltann í teignum og Alisson braut á honum. Mike Dean benti á vítapunktinn og Barnes skoraði sjálfur úr vítinu og tryggði Burnley sigurinn. 

Liverpool hefur nú leikið fjóra deildarleiki í röð án þess að skora mark og fimm leiki án þess að vinna. Meistararnir eru í fjórða sæti með 34 stig og Burnley í 16. sæti með 19 stig. 

Liverpool 0:1 Burnley opna loka
90. mín. Dwight McNeil (Burnley) á skot framhjá Fín tilraun á nærstöngina en rétt framhjá. Fjórar mínútur í uppbótartíma.
mbl.is