Mjög leiðir yfir því að vera dottnir út

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, á hliðarlínunni í leiknum í dag.
Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, á hliðarlínunni í leiknum í dag. AFP

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, sagðist leiður yfir því að lið hans væri dottið út úr ensku bikarkeppninni, en liðið tapaði 0:1 fyrir Southampton í keppninni í dag.

Arsenal eru ríkjandi bikarmeistarar en með tapinu er ljóst að liðið nær ekki að verja titilinn. „Við erum mjög leiðir yfir því að vera dottnir út úr keppninni,“ sagði Arteta í samtali við BT Sport að leik loknum.

„Við áttum í vandræðum í fyrri hálfleiknum og gerðum mistök vegna hápressunnar þeirra. Í síðari hálfleik áttum við tvö eða þrjú mjög góð færi,“ bætti hann við.

Arteta sagði liðið hafa gert sitt besta til þess að jafna metin en að það hafi ekki verið nóg þegar allt kæmi til alls.

„Þetta var jafn leikur. Í fyrri hálfleiknum unnu þeir mikið af seinni boltum. Í síðari hálfleiknum voru meiri gæði í okkar leik. Við stjórnuðum ferðinni og sköpuðum okkur færi en það var ekki nóg.“

mbl.is