Villa bætti enn á kvalir Newcastle

Ross Barkley og Bertrand Traoré fagna glæsilegu marki þess síðarnefnda …
Ross Barkley og Bertrand Traoré fagna glæsilegu marki þess síðarnefnda í leiknum í kvöld. AFP

Aston Villa vann þægilegan 2:0 sigur gegn Newcastle United í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld. Newcastle tapaði þar með fjórða leik sínum í röð í deildinni.

Villa komst yfir á 13. mínútu. Þá komst Matt Targett í fína stöðu á vinstri kantinum, gaf fyrir og virtist Fabian Schär ætla að hreinsa boltann frá. Schär hitti hins vegar ekki boltann og Ollie Watkins þakkaði fyrir það með því að skalla boltann í netið, 1:0.

Villa tvöfaldaði svo forystu sína skömmu fyrir leikhlé. Þá var Jack Grealish með knöttinn í grennd við vítateiginn, hann renndi boltanum út á Bertrand Traoré sem kom aðvífandi og lagði boltann firnafast í slána og inn, 2:0 og voru það hálfleikstölur.

Í síðari hálfleik var ekkert skorað og góður 2:0 sigur Villa því staðreynd.

Með sigrinum fer Aston Villa upp í 8. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 29 stig. Villa á enn einn til tvo leiki til góða á flest lið og getur því blandað sér af alvöru í Evrópubaráttuna.

Newcastle hefur nú aðeins náð í tvö stig í síðustu átta leikjum sínum í deildinni og er komið niður í 16. sæti. Þrátt fyrir það er liðið enn sjö stigum frá fallsæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert