Burnley og Leicester áfram í bikarnum

Jóhann Berg Guðmundsson fagnar öðru marki Jay Rodriguez í sigrinum …
Jóhann Berg Guðmundsson fagnar öðru marki Jay Rodriguez í sigrinum gegn Fulham í dag. AFP

Burnley vann öruggan 3:0 sigur gegn Fulham í úrvalsdeildarslag á Craven Cottage-vellinum í Lundúnum í ensku bikarkeppninni í dag. Jóhann Berg Guðmundsson lék allan leikinn í liði Burnley.

Jay Rodriguez var vel upplagður í leiknum í dag og skoraði fyrstu tvö mörkin, auk þess sem hann lagði upp það þriðja.

Rodriguez kom Burnley yfir eftir rúman hálftíma leik. Þá fékk hann góða fyrirgjöf af hægri kanti frá Jack Cork og skallaði boltann af krafti í netið.

Staðan í hálfleik 1:0 og tvöfaldaði Rodriguez forystuna á 71. mínútu úr vítaspyrnu. Matej Vydra var þá felldur innan teigs og Rodriguez setti boltann á mitt markið, 2:0.

Á 84. mínútu kláraði Burnley leikinn endanlega. Rodriguez náði þá að stýra fyrirgjöf niður með brjóstkassanum og senda þannig boltann á Kevin Long sem þrumaði boltanum í netið.

Burnley er þar með komið áfram í fimmtu umferð ensku bikarkeppninnar og mætir þar annaðhvort Bournemouth eða Crawley Town á heimavelli.

Endurkomusigur Leicester

Leicester City vann 3:1 útisigur gegn B-deildar liði Brentford í keppninni eftir að hafa lent undir snemma leiks.

Mads Bech kom heimamönnum í Brentford yfir strax á 6. mínútu og þannig var staðan í hálfleik.

Allt annað var að sjá til Leicester-manna í síðari hálfleik og voru þeir búnir að jafna strax á 46. mínútu, þegar Cengiz Ünder skoraði.

Aðeins fimm mínútum síðar skoraði Youri Tielemans úr vítaspyrnu og Leicester búið að snúa taflinu við.

James Maddison kórónaði svo góða endurkomu Leicester þegar hann skoraði þriðja mark liðsins á 71. mínútu, 3:1.

Þar við sat og Leicester er þar með komið áfram í fimmtu umferð, þar sem liðið mætir Brighton & Hove Albion á heimavelli í úrvalsdeildarslag.

mbl.is