Þarft stundum lágpunkt til að ná fram breytingum

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, svekktur í leiknum gegn Burnley á …
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, svekktur í leiknum gegn Burnley á fimmtudaginn. AFP

Liverpool heimsækir erkifjendur sína í Manchester United í fjórðu umferð ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu í dag. Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, telur liðið geta dregið lærdóm af slæmu 0:1 heimatapi í ensku úrvalsdeildinni gegn Burnley síðastliðinn fimmtudag.

Liverpool hefur gengið bölvanlega í deildinni að undanförnu og ekki náð að vinna í fimm leikjum í röð, og ekki skorað í síðustu fjórum leikjum. Á meðan hefur Man Utd gengið frábærlega og er komið á topp deildarinnar.

Klopp segir þó leikmenn sína fyllilega tilbúna í slaginn gegn erkifjendunum í dag og að þeir geti lært af erfiðu gengi undanfarið, og þá sérstaklega tapinu gegn Burnley. „Við töpuðum leiknum gegn Burnley og það var mikill lágpunktur fyrir okkur. Það er ekki eins og ég hugsi með mér: „Hverjum er ekki sama?“ Alls ekki.

Þetta var leikur sem við töpuðum og þegar ég hugsa til baka get ég ekki fundið ástæður fyrir því að við töpuðum honum. En við töpuðum þessum leik. Það gerðist og stundum þarf maður algjöran lágpunkt til þess að knýja fram almennilegar breytingar.

Það er nákvæmlega það sem við ætlum að reyna að gera, 100 prósent. Leikurinn á fimmtudaginn getur hjálpað okkur mikið ef við ákveðum að nota hann þannig,“ sagði Klopp í samtali við opinbera heimasíðu Liverpool í gær.

mbl.is