United sló Liverpool út úr bikarnum

Bruno Fernandes fagnar sigurmarki sínu í kvöld.
Bruno Fernandes fagnar sigurmarki sínu í kvöld. AFP

Manchester United vann erkifjendur sína og nágranna í Liverpool í fjórðu umferð ensku bikarkeppninnar á Old Trafford-vellinum í Manchester í kvöld. Bráðfjörugum og hörkuspennandi grannaslag lauk með með 3:2 sigri Man Utd.

Mohamed Salah kom gestunum í Liverpool yfir á 18. mínútu. Roberto Firmino fékk þá boltann á miðsvæðinu og sendi boltann inn fyrir á Salah sem var skyndilega kominn einn á móti Dean Henderson í marki Man Utd og vippaði laglega yfir hann með hægri fæti, 0:1. Victor Lindelöf var skringilega staðsettur í vörn Man Utd og spilaði Salah réttstæðan.

Átta mínútum síðar jafnaði Man Utd metin. Liðið fór þá í skyndisókn og barst boltinn til Marcus Rashford á vinstri kantinum. Rashford sá flott hlaup Mason Greenwood og gaf frábæra 30 metra sendingu beint í hlaupaleið Greenwood sem var sloppinn í gegn og kláraði vel með hægri fæti í bláhornið framhjá Alisson í marki Liverpool, 1:1. James Milner var að hlaupa til baka og gerði sig líklegan til þess að skalla boltann frá áður en hann barst til Greenwood en vantaði nokkra sentimetra upp á og hitti ekki boltann.

Snemma í síðari hálfleik náðu heimamenn svo forystunni. Greenwood sendi þá boltann inn fyrir á Rashford, Rhys Williams í vörn Liverpool gerði hræðileg mistök þegar hann hitti ekki boltann þegar hann reyndi að hreinsa. Rashford slapp þar með í gegn og setti boltann örugglega framhjá Alisson, 2:1.

Eftir tæplega klukkutíma leik náði Liverpool að jafna metin þegar Salah skoraði annað mark sitt í leiknum. Edinson Cavani átti þá hræðilega sendingu á eigin vallarhelmingi. Milner náði boltanum, kom honum á Firmino sem virtist ætla að gefa aftur á Milner fyrir miðjum vítateignum. Milner var þó skynsamur þar sem hann sá Salah bíða eftir boltanum og lét hann því fara. Salah kláraði færið örugglega, 2:2.

Á 78. mínútu náði Man Utd forystunni á ný. Liðið fékk þá aukaspyrnu rétt fyrir utan teig. Bruno Fernandes, sem hafði komið inn á sem varamaður 12 mínútum áður, gerði sér lítið fyrir og hamraði boltann beint úr aukaspyrnunni í bláhornið markmanns megin, 3:2. Glæsilegt mark og lítið sem Alisson gat gert í hárnákvæmu og bylmingsföstu skoti Fernandes.

Þar við sat og Man Utd er því komið áfram í fimmtu umferð ensku bikarkeppninnar, þar sem liðið mætir West Ham United á heimavelli.

Mason Greenwood jafnar metin fyrir Man Utd í leiknum í …
Mason Greenwood jafnar metin fyrir Man Utd í leiknum í kvöld. AFP
Mohamed Salah kemur gestunum í Liverpool yfir.
Mohamed Salah kemur gestunum í Liverpool yfir. AFP
Thiago og Roberto Firmino hjá Liverpool í baráttu við Paul …
Thiago og Roberto Firmino hjá Liverpool í baráttu við Paul Pogba hjá Man Utd. AFP
Man. Utd 3:2 Liverpool opna loka
94. mín. Leik lokið Manchester United slær erkifjendur sína og nágranna út úr ensku bikarkeppninni.
mbl.is