Chelsea segir Lampard upp störfum

Frank Lampard.
Frank Lampard. AFP

Enska knattspyrnufélagið Chelsea hefur sagt knattspyrnustjóranum Frank Lampard upp störfum eftir hálfs annars árs dvöl hjá félaginu.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem félagið birti rétt í þessu.

Þar segir:

„Chelsea hefur í dag sagt yfirþjálfaranum Frank Lampard upp störfum. Þetta var mjög erfið ákvörðun fyrir bæði eigandann og stjórn félagsins.

Við erum þakklát Frank fyrir það sem hann hefur áorkað í starfi sínu en úrslit og frammistaða liðsins að undanförnu hafa ekki verið samkvæmt væntingum félagsins. Liðið situr eftir í miðri deild án þess að fyrirsjáanlegar séu frekari framfarir.

Það er aldrei góður tími til að segja upp goðsögn í sögu félagsins eins og Frank, en eftir langar vangaveltur og umræður var niðurstaðan sú að breytingarnar yrði að gera núna strax til þess að félagið hefði tækifæri til að bæta leik liðsins og ná betri úrslitum á þessu keppnistímabili.

Félagið mun ekki láta hafa neitt frekar eftir sér fyrr en nýr yfirþjálfari hefur verið ráðinn.“

Þá hefur Roman Abramovich eigandi Chelsea sent frá sér yfirlýsingu:

„Þetta var mjög erfið ákvörðun fyrir félagið, ekki síst vegna þess að ég hef átt persónulega frábær samskipti við Frank og ber gríðarlega mikla virðingu fyrir honum.

Hann er mjög heilsteyptur og heiðarlegur maður með vinnusiðferði á hæsta stigi. En við þessar kringumstæður töldum við best að skipta um knattspyrnustjóra.

Fyrir hönd allra hjá félaginu, stjórnarinnar og sjálfs mín þakka ég Frank fyrir hans störf sem yfirþjálfari og óska honum alls hins besta í framtíðinni. Hann er mikilvægur maður í sögu þessa frábæra félags og staða hans innan þess er óhögguð. Hann verður ávallt innilega vekominn á Stamford Bridge.“

mbl.is