Norðmaðurinn tilbúinn hjá Arsenal

Martin Ödegaard í leik með Real Madrid.
Martin Ödegaard í leik með Real Madrid. AFP

Ljóst er að norski knattspyrnumaðurinn Martin Ødegaard mun leika með Arsenal út þetta tímabil sem lánsmaður frá Real Madrid.

Hann lauk læknisskoðun hjá enska félaginu í morgun og samkvæmt Sky Sports er stefnt að því að hann geti spilað með Arsenal um næstu helgi.

Samkvæmt Daily Mail greiðir Arsenal 1,8 milljónir punda til Real Madrid fyrir lánssamninginn, ásamt því að greiða laun hans sem nema 38 þúsund pundum á viku. Heildarkostnaður fyrir Arsenal er því um 2,5 milljónir punda.

Ødegaard er 22 ára gamall og hefur verið í röðum Real Madrid frá 16 ára aldri þegar hann kom til félagsins frá Strømsgodset en hefur að mestu verið í láni hjá öðrum félögum, aðallega í Hollandi. Hann hefur þó leikið með Real Madrid á yfirstandandi tímabili og á samtals ellefu mótsleiki að baki með aðalliði félagsins.

mbl.is