Rúnar Alex ekki í leikmannahópi Arsenal

Rúnar Alex Rúnarsson er ekki í hópi hjá Arsenal.
Rúnar Alex Rúnarsson er ekki í hópi hjá Arsenal. AFP

Rúnar Alex Rúnarsson er ekki í leikmannahópi enska knattspyrnufélagsins Arsenal sem heimsækir Southamtpon í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.

Bernd Leno er á sínum stað í marki Arsenal og þá er Matthew Ryan á varamannabekk liðsins en Ryan gekk til liðs við Arsenal á láni frá Brighton á dögunum.

Rúnar Alex hefur verið orðaður við brottför frá Arsenal að undanförnu en hann hefur aðeins byrjað fimm leiki fyrir félagið í öllum keppnum síðan hann gekk til liðs við félagið frá franska 1. deildarfélaginu Dijon í september.

Rúnar Alex hefur verið orðaður við lið í ensku B-deildinni en hann mun að öllum líkindum yfirgefa Arsenal á láni.

mbl.is