Viðurkenna mistök í marki Manchester City

Bernardo Silva skorar markið umdeilda gegn Aston Villa.
Bernardo Silva skorar markið umdeilda gegn Aston Villa. AFP

Enska knattspyrnusambandið hefur viðurkennt að fyrra mark Manchester City í sigri liðsins á Aston Villa, 2:0, í úrvalsdeildinni í síðustu viku hefði ekki átt að standa og hefur í kjölfarið breytt áherslum í rangstöðureglunum.

Rodri, leikmaður Manchester City, kom þá úr rangstöðu, náði boltanum af aftasta varnarmanni Aston Villa og lagði upp markið fyrir Bernardo Silva. Þetta gerðist á 79. mínútu þegar staðan var enn 0:0. Dean Smith knattspyrnustjóri Villa fékk rauða spjaldið fyrir að mótmæla markinu kröftuglega.

Markið var úrskurðað löglegt eftir að það var skoðað af myndbandsdómurum leiksins og í kjölfarið urðu heitar umræður um lögmæti þess. Úrvalsdeildin gaf fyrst frá sér yfirlýsingu um að markið hefði á allan hátt verið löglegt því Rodri hefði ekki hagnast af því að vera rangstæður.

Nú hafa forráðamenn deildarinnar skipt um skoðun, eftir samráð við IFAB, alþjóðlega reglugerðarnefnd fótboltans, og gáfu út í dag yfirlýsingu um að í þessu tilviki hefði Rodri hagnast af því að vera í rangstöðu og því hefði átt að dæma á hann um leið og hann tók boltann af Tyrone Mings, varnarmanni Villa.

mbl.is