Ekkert pláss fyrir vonbrigði og svekkelsi

Thomas Tuchel stýrði sínum fyrsta leik sem knattspyrnustjóri Chelsea í …
Thomas Tuchel stýrði sínum fyrsta leik sem knattspyrnustjóri Chelsea í kvöld. AFP

Thomas Thuchel, nýráðinn knattspyrnustjóri Chelsea, var ánægður með vinnuframlag leikmanna sinna eftir markalaust jafntefli liðsins gegn Wolves í ensku úrvalsdeildinni á Stamford Bridge í London í kvöld.

Chelsea fékk hættulegri færi í leiknum en tókst ekki að nýta þau sem skildi og markalaust jafntefli því niðurstaðan.

Þetta var fyrsti leikur Chelsea undir stjórn Tuchels sem tók við stjórnartaumunum af Frank Lampard í gær.

„Ég var virkilega sáttur með vinnuframlag leikmanna liðsins í kvöld,“ sagði Tuchel í samtali við Sky Sports.

„Ég lét leikmennina vita af því í hálfleik að það væri ekkert pláss fyrir vonbrigði og svekkelsi og við þyrftum að halda áfram.

Við gerðum vel varnarlega og þeim tókst aldrei að nýta sér sína helstu styrkleika sem eru hraðar skyndisóknir.

Við héldum áfram af fullum krafti allan leikinn og ef þessi frammistaða er eitthvað sem koma skal er ég mjög spenntur að sjá hver liðið mun enda,“ bætti Tuchel við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert