Gæti snúið aftur á þessu tímabili

Raúl Jiménez og David Luiz hjá Arsenal liggja eftir áreksturinn …
Raúl Jiménez og David Luiz hjá Arsenal liggja eftir áreksturinn harkalega í nóvember. AFP

Nuno Espirito Santo, knattspyrnustjóri Wolves, segir að mögulegt sé að mexíkóski framherjinn Raúl Jiménez snúi aftur á völlinn fyrir lok tímabilsins þrátt fyrir að hafa höfuðkúpubrotnað í leik í nóvember.

Jiménez fékk þungt högg í leik gegn Arsenal 29. nóvember og fór í aðgerð í kjölfarið en til þessa hefur engin tímasetning verið sett á endurkomu hans.

„Við erum mjög bjartsýn á að þetta gæti tekist. Hann hefur staðið sig einstaklega vel. Við og læknateymi félagsins erum mjög hissa á hve vel honum hefur gengið í endurhæfingunni og hann sýnir daglegar framfarir. Bara það að sjá hann hlaupa og lyfta lóðum og fara í gegnum hörkuæfingar er upplífgandi fyrir alla því heilsan er ávallt í fyrsta sæti," sagði Nuno við BBC.

Jiménez er enn annar tveggja markahæstu leikmanna Wolves í úrvalsdeildinni á tímabilinu þrátt fyrir að hafa verið frá keppni í átta vikur en hann hafði skorað fjögur mörk þegar óhappið átti sér stað.

Jiménez er 29 ára gamall og kom til Wolves frá Benfica fyrir tveimur árum en lék áður með Atlético Madrid. Hann hefur skorað 27 mörk í 86 landsleikjum fyrir Mexíkó.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert