Markalaust í fallslagnum

Tosin Adarabioyo hjá Fulham í baráttu við Leandro Trossard hjá …
Tosin Adarabioyo hjá Fulham í baráttu við Leandro Trossard hjá Brighton. AFP

Brighton & Hove Albion og Fulham gerðu markalaust jafntefli í fallbaráttuslag á Amex-vellinum í Brighton í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld.

Bæði lið hefðu haft mikinn hag af því að vinna þennan leik en Fulham þó sérstaklega þar sem liðið er í fallsæti, fimm stigum á eftir Brighton, sem er í sætinu fyrir ofan.

Bæði lið fengu fín færi í leiknum en inn vildi boltinn ekki. Næst komst Neal Maupay, framherji Brighton því að skora þegar hann fékk tvö góð færi í síðari hálfleik.

Fyrra færið hans kom á 70. mínútu þegar Alexis Mac Allister átti góða sendingu inn fyrir vörn Fulham og Maupay kominn einn gegn Alphonse Areola í marki Fulham en skaut boltanum yfir.

Seinna færið kom á 83. mínútu þegar Maupay fékk boltann frá Leandro Trossard í góðri stöðu en Areola varði frábærlega frá honum.

Þar við sat og liðin þurftu að sættast á eitt stig hvort. Brighton er enn í 17. sæti deildarinnar, nú með 18 stig. Fulham er í sætinu fyrir neðan með 13 stig, en á þó leik til góða og getur því saxað á forskot Brighton.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert