Tvær rangar ákvarðanir

Ole Gunnar Solskjær var svekktur eftir tap sinna manna í …
Ole Gunnar Solskjær var svekktur eftir tap sinna manna í kvöld. AFP

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, sakaði dómarann Peter Bankes um að gera tvenn stór mistök í leik United og Sheffield United í ensku úrvalsdeildinni á Old Trafford í kvöld.

Leiknum lauk með 2:1-sigri Sheffield United en það var Olivier Burke sem skoraði sigurmark leiksins á 74. mínútu.

United er nú stigi á eftir Manchester City í öðru sæti deildarinnar en City á leik til góða.

„Ég er virkilega svekktur þar sem við náðum aldrei upp neinum takti í spilamennskuna okkar í kvöld,“ sagði Solskjær í samtali við BBC Sport.

„Þeir vörðust mjög aftarlega og okkur gekk einfaldlega mjög illa að opna þá. Dómarinn tók tvær rangar ákvarðanir en þannig er það bara.

Svona verður tímabilið og svona hefur það verið. Okkur skorti einfaldlega kraft og sköpunargáfu til þess að klára leikinn en það þýðir ekki að dvelja of lengi við þennan leik.

Við fengum á okkur tvö ódýr mörk sem við hefðum átt að koma í veg fyrir. Við töpuðum boltanum á hættulegum stað, gerðum illa í að vinna hann til baka og svo tókst okkur ekki að hreinsa frá marki.

Þetta er búið og gert og núna skiptir máli hvernig við svörum fyrir okkur í næstu leikjum. Við eigum stórleik gegn Arsenal um næstu helgi og við þurfum að læra af mistökunum sem við gerðum í kvöld og mæta tilbúnir til leiks gegn Arsenal,“ bætti Solskjær við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert