United tapaði gegn botnliðinu – Jafnt á Goodison

Oliver Burke fagnar sigurmarki sínu fyrir Sheffield United gegn Manchester …
Oliver Burke fagnar sigurmarki sínu fyrir Sheffield United gegn Manchester United ásamt Chris Basham. AFP

Manchester United hljóp illa á sig í toppbaráttunni í ensku úrvalsdeildinni í kvöld þegar liðið tapaði 1:2 gegn botnliði Sheffield United á heimavelli sínum Old Trafford. Þá gerðu Everton og Leicester City 1:1 jafntefli þar sem Jordan Pickford kostaði Everton sigurinn með slæmum mistökum.

Á 23. mínútu komust gestirnir í Sheffield United mjög óvænt yfir. John Fleck tók þá hornspyrnu frá hægri og fann þar Kean Bryan við markteigslínuna, hann stökk manna hæst og skallaði boltann í fjærhornið, stöngin inn. Botnliðið fór því með 1:0 forystu í hálfleik.

Man Utd hélt þó áfram að herja að liðsmönnum Sheff Utd. Á 64. mínútu jafnaði Harry Maguire metin fyrir heimamenn. Aftur var um hornspyrnu að ræða, en föst spyrna Alex Telles fór rakleitt á kollinn á Maguire, sem var einn á auðum sjó og skallaði boltann örugglega í bláhornið fjær, 1:1.

Það voru þó gestirnir í Sheff Utd sem tókur forystuna að nýju. Liðsmenn Sheff Utd fengu þá að dóla sér með boltann í kringum vítateig Man Utd. Eftir tvær misheppnaðar hreinsanir Man Utd-manna lagði John Lundstram boltann til hliðar á Oliver Burke, sem fékk að stilla upp í skot innan teigs. Skot hans stefndi beint á markið en fór af hnénu á Axel Tuanzebe, í slána, og þaðan í netið.

Staðan orðin 2:1 og leikmenn Man Utd vissu ekki hvaðan á þá stóð veðrið. Sheff Utd hélt út og vann magnaðan útsigur.

Man Utd er áfram í 2. sæti deildarinnar eftir tapið, einu stigi á eftir Manchester City, sem á einnig leik til góða.

Sheff Untd er áfram í botnsætinu en nálgast nú West Bromwich Albion í 19. sætinu. Enn eru þó 10 stig í öruggt sæti en sigur sem þessi hlýtur að gefa liðinu byr undir báða vængi.

Hræðileg mistök Pickford

Leikur Everton og Leicester á Goodison Park-vellinum í Liverpool var hörkuspennandi.

Eftir hálftíma leik tók Everton forystuna. James Rodríguez reyndi þá fyrirgjöf sem Wesley Fofana hreinsaði frá. Boltinn fór þó ekki langt og beint í lappir James aftur. Hann lék með boltann aðeins nær vítateignum, lagði hann á hægri fótinn og tók frábært skot sem fór í stöngina og inn, óverjandi fyrir Kasper Schmeichel í marki Leicester.

Staðan orðin 1:0 og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Á 67. mínútu gerði Jordan Pickford í marki Everton sig sekan um slæm mistök. Þá tók Youri Tielemans skot fyrir utan teig. Skotið var ekki fast og nánast beint á Pickford en það fór ekki betur en svo fyrir landsliðsmarkvörð Englands að hann varði boltann klaufalega inn, 1:1.

Mistökin reyndust Everton dýrkeypt þar sem ekki voru skoruð fleiri mörk og þurftu liðin því að sættast á jafnan hlut.

Eftir jafnteflið er Everton áfram í 7. sæti deildarinnar og Leicester áfram í 3. sæti deildarinnar.  

Gylfi Þór Sigurðsson kom inn á sem varamaður hjá Everton á 86. mínútu leiksins.

Jordan Pickford var skúrkur kvöldsins.
Jordan Pickford var skúrkur kvöldsins. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert