Arsenal og Benfica í vandræðum með leikstaði

Arsenal á framundan leiki við Benfica í Evrópudeildinni.
Arsenal á framundan leiki við Benfica í Evrópudeildinni. AFP

Horfur eru á að leikir Arsenal og Benfica í 32ja liða úrslitum Evrópudeildarinnar í fótbolta geti ekki farið fram á heimavöllum liðanna 18. og 25. febrúar eins og til stendur.

Bæði Portúgal og England hafa hert mjög reglur vegna útbreiðslu kórónuveirunnar og þó afreksíþróttafólk hafi fengið ýmisskonar tilslakanir til að geta haldið áfram keppni eru ekki líkur á að félögin fái undanþágur að þessu sinni.

Bretar eru með Portúgal á „rauðum lista“ sem þýðir að hver sá sem kemur þaðan þarf að vera í sóttkví á hóteli í tíu daga eftir heimkomuna. Það myndi ekki ganga upp í tilfelli Arsenal, enda eru aðeins sjö dagar á milli leikjanna í Lissabon og London.

The Guardian skýrir frá því að viðræður félaganna standi yfir en þau þurfa að finna leikstaði þar sem reglur eru ekki eins strangar. Þá hafi Arsenal haft samband við knattspyrnusambönd nokkurra Evrópuríkja um möguleikana á að færa leikina þangað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert