Dawson um stórleikinn: Mikil vonbrigði og betra liðið vann

„Þetta var verðskuldaður sigur hjá Liverpool,“ sagði Michael Dawson, fyrrverandi leikmaður enska knattspyrnufélagsins Tottenham, í samtali við Símann Sport í kvöld.

Englandsmeistararnir eru komnir aftur á beinu brautina í ensku úrvalsdeildinni eftir 3:1-útisigur gegn Tottenham en Dawson gerði upp leikinn með þeim Tómasi Þór Þórðarsyni og Bjarna Þór Viðarssyni.

„Eftir mjög fjöruga byrjun róaðist leikurinn mikið og það var lítið um færi. Ég get ímyndað mér að José Mourinho hafi verið brjálaður í hálfleik eftir að liðið fékk á sig mark í uppbótartíma fyrri hálfleiks og það breytti klárlega hálfsleiksræðu þjálfarans.

Maður fékk það á tilfinninguna að Tottenham gæti komið til baka þegar Höjberg minnkaði muninn en Liverpool gerði út um leikinn þegar Mané skoraði þriðja markið.“

Bakverðir Liverpool, Trent Alexander-Arnold og Andy Robertson, áttu báðir mjög góðan leik og Dawson telur að Tottenham hafi hleypt þeim óþægilega mikið inn í leikinn.

„Liverpool vill spila með bakverðina hátt uppi en frammstaða Tottenham var vonbrigði. Þeir komust aldrei ofarlega á völlinn og hleyptu þannig bakvörðum Liverpool upp kantana trekk í trekk.

Þegar allt kemur til alls var frammistaða Tottenham vonbrigði og betra liðið vann í kvöld,“ bætti Dawson við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert