„Hefðu sungið nafn Lampards allan tímann“

Tómas Þór Þórðarson ræddi við Henry Winter, ritstjóra íþróttadeildar The Times á Englandi, um brottrekstur Franks Lampards frá Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á dögunum. Winter segist ekki hafa verið hissa, jafnvel þótt Lampard sé goðsögn hjá félaginu.

„Ég held að flestir stuðningsmenn myndu segja það sama: hann er goðsögn hjá félaginu og ekki bara út af mörkunum sem hann skoraði heldur hvernig hann spilaði, nánast sem stuðningsmaður,“ sagði Winter en hann var gestur í þættinum Vellinum á Símanum Sport.

„Roman Abramovich á félagið, hann setur peninga í það og tekur þessa ákvörðun á endanum. Það er heppilegt fyrir hann að það séu engir stuðningsmenn á vellinum út af heimsfaraldrinum, því að þeir hefðu sungið nafn Lampards allan tímann á síðasta leik. Ekki af því að þeir hafa eitthvað á móti Thomas Tuchel, heldur vegna þess að þeir elska Frank Lampard.“

Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert