Gylfi komst í fámennan hóp í kvöld

Gylfi Þór Sigurðsson lék sinn 400. deildaleik á ferlinum í …
Gylfi Þór Sigurðsson lék sinn 400. deildaleik á ferlinum í kvöld. AFP

Gylfi Þór Sigurðsson nær sögulegum áföngum í nánast hverjum leik sem hann spilar þessa dagana og hann bætti einum í safnið í kvöld þegar hann lék með Everton gegn Manchester United á Old Trafford í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Gylfi lék í kvöld sinn 400. deildaleik á ferlinum þegar liðin skildu jöfn á Old Trafford, 3:3, en hann er aðeins 28. íslenski knattspyrnumaðurinn frá upphafi sem nær þeim áfanga. Þó eru aðeins 18 dagar síðan landsliðsfélagi hans, Ari Freyr Skúlason, náði fjögur hundruð leikja markinu. Þegar Ari lék 400. leikinn 20. janúar hafði enginn íslenskur leikmaður náð þeim áfanga í hálft annað ár. 

Meira um íslenska leikmenn með 400 leiki má sjá í þessari frétt um Ara Frey og öðrum fréttum sem tengdar eru við hana:

Gylfi er 31 árs og hefur spilað erlendis allan meistaraflokksferil sinn eftir að hafa komið 16 ára gamall til Reading frá Breiðabliki haustið 2005.

Hann lék þó fyrsta deildaleikinn með Shrewsbury í ensku D-deildinni 18. október 2008. Hann var lánaður þangað í einn mánuð og skoraði strax í fyrsta leiknum, í 4:1 sigri Shrewsbury gegn Bournemouth. Gylfi lék fimm deildaleiki með Shrewsbury.

Síðar sama vetur, í febrúar 2009, var Gylfi lánaður til Crewe í C-deildinni og lék með liðinu til vorsins þar sem hann spilaði 15 deildaleiki og skoraði þrjú mörk.

Gylfi hafði leikið bikarleiki fyrir Reading, bæði í deildabikarnum og enska bikarnum, á tímabilinu 2008-2009 en fyrsta deildaleikinn með liðinu spilaði hann í ágúst 2009. Hann lék 38 leiki í B-deildinni tímabilið 2009-10, og skoraði 16 mörk, og hafði leikið fjóra leiki og skorað tvö mörk á nýju tímabili þegar hann var seldur til Hoffenheim í Þýskalandi í ágúst 2010.

Gylfi lék með Hoffenheim í hálft annað ár en hann lék 36 leiki í efstu deild Þýskalands og skoraði níu mörk.

Swansea fékk Gylfa lánaðan frá Hoffenheim 1. janúar 2012. Gylfi lék 18 úrvalsdeildarleiki til vorsins og skoraði 7 mörk.

Gylfi Þór Sigurðsson er 28. íslenski knattspyrnumaðurinn sem leikur 400 …
Gylfi Þór Sigurðsson er 28. íslenski knattspyrnumaðurinn sem leikur 400 deildaleiki. AFP

Tottenham keypti Gylfa af Hoffenheim í júlí 2012 og hann lék með liðinu í tvö ár. Gylfi lék 58 úrvalsdeildarleiki fyrir Tottenham og skoraði 8 mörk.

Swansea keypti Gylfa af Tottenham í júlí 2014 og hann lék með velska liðinu í ensku úrvalsdeildinni í þrjú ár. Þar spilaði hann 106 úrvalsdeildarleiki og skoraði 27 mörk. Hann er markahæsti leikmaðurinn í sögu Swansea í úrvalsdeildinni með 34 mörk.

Everton keypti Gylfa af Swansea í ágúst 2017. Frá þeim tíma hefur hann leikið 120 úrvalsdeildarleiki fyrir félagið og skorað í þeim 22 mörk.

Leikur númer 400 var sem sagt í kvöld og af þeim eru 302 í ensku úrvalsdeildinni, 42 í ensku B-deildinni, 36 í þýsku 1. deildinni, 15 í ensku C-deildinni og 5 í ensku D-deildinni.

Gylfi hefur skorað 96 mörk í þessum leikjum, 64 þeirra í ensku úrvalsdeildinni, 19 í ensku B-deildinni, 9 í þýsku 1. deildinni, 3 í ensku C-deildinni og eitt í ensku D-deildinni.

Miðað við aldur Gylfa og framtíðarhorfur ætti alls ekki að vera óraunhæft að búast við því að hann nái 500 deildaleikjum áður en ferilinn er úti. Aðeins fjórir Íslendingar hafa afrekað það, Arnór Guðjohnsen, Ívar Ingimarsson, Hermann Hreiðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert