Luis García: Getum ekki haft hátt núna

Luis García var að vonum ekki ánægður eftir 1:4 tap hans manna í Liverpool gegn Manchester City í dag.

„Auðvitað ekki. Við Liverpool-stuðningsmenn erum ekki ánægðir.  Við getum ekki haft hátt akkúrat núna,“ sagði hann eftir leik í Vellinum í samtali við Tómas Þór Þórðarson, ritstjóra enska boltans á Símanum Sport.

Aðspurður hvort honum hafi þótt svona mikill munur á liðunum sagði García: „Mér fannst Manchester City vera meira við stjórn í leiknum. Þeir spiluðu þann leik sem þeir vildu spila og stjórnuðu honum. Þeir héldu boltanum þegar þeir þurftu á því að halda. Þegar Liverpool var með boltann fundu leikmenn Manchester City ekki fyrir neinni ógn frá þeim. City beið bara eftir að fá sín færi.

Mér fannst þó Liverpool bregðast vel við eftir að hafa fengið fyrsta markið á sig. Þeir fengu þá eitthvað af færum en mér fannst ég merkja skort á sjálfstrausti hjá Liverpool.“

Viðtal Tómasar Þórs við Luis García í Vellinum í kvöld má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert