Margrét Lára: Skrítin ákvörðun hjá Solskjær

„Maður skilur þetta ekki alveg og þetta var skrítin ákvörðun hjá Solskjær,“ sagði Margrét Lára Viðarsdóttir í Vellinum á Síminn Sport í gær.

Þar ræddi Tómas Þór Þórðarson, ritstjóri enska boltans, leik Manchester United og Everton við sérfræðinga sína þau Bjarna Þór Viðarsson og Margréti Láru.

Leik United og Everton lauk með 3:3-jafntefli en Dominic Calvert-Lewin skoraði jöfnunarmark Everton í uppbótartíma.

Fjórum mínútum var bætt við venjulegan leiktíma en Ole Gunnar Solskjær, stjóri United, ákvað að gera skiptingu í uppbótartíma og við það lengdist tíminn.

„Það eina sem maður getur mögulega séð í þessu er að hann var mögulega að reyna að styrkja varnarlínuna fyrir þessi föstu leikatriði eins og aukaspyrnur og hornspyrnur.

Mér fannst hins vegar ekkert í spilunum að Everton væri að fara að jafna þennan leik þannig að hann þurfti held ég ekkert að hrófla við þessu,“ bætti Margrét Lára við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert