Margrét um de Gea: Veit ekki hvar maður á að byrja

„Ég veit ekki hvar maður á að byrja,“ sagði knattspyrnukonan fyrrverandi Margrét Lára Viðarsdóttir þegar hún ræddi David de Gea, markvörð Manchester United, og frammistöðu hans gegn Everton um helgina.

Liðin mættust í ensku úrvalsdeildinni á Old Trafford á Laugardaginn en De Gea gerði sig sekan um mistök í 3:3-jafntefli liðanna.

Spánverjinn hefur verið talsvert gagnrýndur fyrir frammistöðu sína á tímabilinu en hann hefur verið einn besti leikmaður United undanfarin ár.

„Þetta eru mistök sem hann gerir í fyrsta og þriðja markinu,“ sagði Margrét um frammistöðu De Gea í Vellinum á Síminn Sport í gær.

„Ég er reyndar enginn markvörður þannig að það er kannski erfitt fyrir mig að dæma þetta en þetta er síðasta mínútan í leiknum.

Farðu bara út í þetta eins og alvörustríðsmaður og gerðu þig breiðan og stóran,“ bætti Margrét Lára við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert