Gylfi frábær í níu marka bikarleik

Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki sínu úr vítaspyrnu á Goodison …
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki sínu úr vítaspyrnu á Goodison Park í kvöld. AFP

Gylfi Þór Sigurðsson var allt í öllu fyrir Everton sem vann 5:4-sigur á Tottenham í framlengdum leik í 16-liða úrslitum enska bikarsins í knattspyrnu í kvöld. Íslenski landsliðsmaðurinn skoraði eitt og lagði upp þrjú mörk í leiknum.

Það voru gestirnir sem tóku forystuna og það strax í upphafi leiks. Varnarmaðurinn Davinson Sánchez stangaði knöttinn í netið eftir hornspyrnu Heung-Min Son á þriðju mínútu og hefði Tottenham hæglega getað aukið við forystu sína eftir það, Son fékk sjálfur ágætisfæri sem Robin Olsen varði og þá voru gestirnir almennt sprækari fyrri hluta leiksins.

Staðan átti þó eftir að breytast snögglega er heimamenn tóku við sér og skoruðu þrjú mörk á rúmlega sjö mínútna kafla. Dominic Calvert-Lewin jafnaði metin á 36. mínútu með föstu skoti í nærhornið eftir stoðsendingu frá Gylfa Þór Sigurðssyni en íslenski landsliðsmaðurinn, sem var í byrjunarliði Everton og spilaði allan leikinn, lét heldur betur að sér kveða í leiknum.

Brasilíumaðurinn Richarlison kom Everton í forystu tveimur mínútum síðar með hnitmiðuðu skoti í vinstra hornið, nú eftir undirbúning Calvert-Lewin, og á 43. mínútu fengu heimamenn vítaspyrnu er brotið var á Calvert-Lewin inni í teig eftir sendingu Gylfa Þórs sem sjálfur fór á punktinn. Skoraði hann af öryggi með skoti í hægra hornið. Gestirnir náðu þó að minnka muninn fyrir hálfleik, Érik Lamela gerði það í uppbótartíma eftir þríhyrningsspil við Son inn í vítateig.

Harry Kane skoraði fjórða mark Tottenham í kvöld.
Harry Kane skoraði fjórða mark Tottenham í kvöld. AFP

Staðan varð svo jöfn á 57. mínútu er Sánchez skoraði sitt annað mark, aftur í kjölfar hornspyrnu en rúmum tíu mínútum síðar tóku heimamenn forystuna á nýjan leik, Richarlison með sitt annað mark úr þröngu skotfæri eftir stungusendingu frá Gylfa sem lauk leik með eitt mark og tvær stoðsendingar. Markið virtist ætla duga Everton til sigurs en fyrirliðinn Harry Kane, sem kom inn sem varamaður í liði Tottenham, var á öðru máli og jafnaði metin í 4:4 á 83. mínútu með skalla af stuttu færi eftir fyrirgjöf frá Son.

Það þurfti því að grípa til framlengingar til að skilja liðin að. Gylfi Þór var þar búinn að geyma það besta þar til síðast er hann átti sína þriðju stoðsendingu á 97. mínútu, vippaði boltanum laglega yfir vörn Tottenham og til Bernard sem skoraði með föstu skoti í vinstra hornið. Að þessu sinni tókst Tottenham ekki að jafna metin.

Everton er þar með komið í fjórðungsúrslitin ásamt Bournemouth úr B-deildinni og úrvalsdeildarliðum Leicester, Manchester City, Manchester United og Sheffield United en tveir leikir fara fram á morgun. Það eru viðureignir Wolves og Southampton og Barnsley gegn Chelsea en dregið verður í 8-liða úrslitin annað kvöld.

Everton 5:4 Tottenham opna loka
120. mín. Tottenham fær hornspyrnu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert