Ekkert fær stöðvað City

Bernardo Silva fagnar þriðja marki Manchester City í kvöld.
Bernardo Silva fagnar þriðja marki Manchester City í kvöld. AFP

Manchester City vann góðan 3:1 sigur á útivelli gegn Everton í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Liðið hefur nú unnið 17 leiki í röð í öllum keppnum og er komið með 10 stiga forystu á toppi deildarinnar.

Man City byrjaði af krafti og tók strax alla stjórn á leiknum. Erfiðlega gekk þó að brjóta þéttan varnarmúr Everton á bak aftur.

Það tókst þó eftir rúmlega hálftíma leik þegar Phil Foden fékk boltann utarlega í teignum og reyndi skot í nærhornið með hægri fæti. Skot Foden fór af Seamues Coleman, breytti talsvert um stefnu og endaði í netinu. Man City verðskuldað komið yfir og virtist bara ætla að bæta við mörkum.

Það var því ansi óvænt þegar Everton jafnaði metin með sínu fyrsta og eina skoti í fyrri hálfleiknum, sem var í rauninni ekkert skot, á 38. mínútu. Eftir góða sókn gaf Coleman fyrir á fjærstöngina þar sem Lucas Digne var mættur. Digne gaf fyrir, boltinn fór í stöngina og þaðan í lærið á Richarlison og í netið, 1:1.

Staðan var því jöfn í hálfleik.

Man City var áfram með undirtökin í síðari hálfleiknum og tóku forystuna að nýju eftir rúmlega klukkutíma leik. Eftir gott spil á hægri kantinum lagði Bernardo Silva boltann til hliðar á Riyad Mahrez sem tók glæsilegt innanfótar skot í fyrsta á vítateigslínunni sem fór í stöngina og inn, 2:1.

Á 77. mínútu gerði Silva svo út um leikinn. Mjög gott spil City-manna endaði þá með því að Silva fékk boltann frá Jesus, lék aðeins lengra með hann, tók gabbhreyfingu og skildi Michael Keane eftir, átti svo fast skot rétt fyrir utan teig sem Jordan Pickford varði inn, 3:1.

Ekki var meira skorað í leiknum og Man City sigldi þar með nokkuð þægilegum sigri í höfn.

Um var að ræða leik úr 16. umferð sem var frestað vegna kórónuveirusmita í herbúðum Man City og er liðið nú búið að leika jafn marga leiki og Manchester United og Leicester City, sem eru í öðru og þriðja sæti deildarinnar, 10 stigum á eftir City.

Gylfi Þór Sigurðsson lék allan leikinn í liði Everton og var fyrirliði.

Riyad Mahrez fagnar marki sínu.
Riyad Mahrez fagnar marki sínu. AFP
Richarlison fagnar marki sínu í kvöld.
Richarlison fagnar marki sínu í kvöld. AFP
Phil Foden kemur Manchester City yfir.
Phil Foden kemur Manchester City yfir. AFP
Alex Iwobi og Phil Foden berjast um boltann.
Alex Iwobi og Phil Foden berjast um boltann. AFP
Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Everton 1:3 Man. City opna loka
94. mín. Leik lokið Leiknum lýkur með góðum sigri Man City.
mbl.is