Rúm 10 ár frá síðasta sigri Everton (myndskeið)

Liverpool tekur á móti Everton í bítlaborgarslagnum í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld.

Óhætt er að segja að hart hafi verið barist í borgarslagnum í gegnum tíðina og hefur þá gilt einu hvar á töflunni liðin hafa verið.

Þrátt fyrir að Everton hafi oftast verið að berjast í neðri helmingi deildarinnar í árdaga ensku úrvalsdeildarinnar skoruðu erkifjendurnir í Liverpool mjög sjaldan á Goodison Park og unnu raunar sinn fyrsta sigur í úrvalsdeildinni á vellinum árið apríl 2001, 3:2, þegar Gary McAllister skoraði sigurmarkið á elleftu stundu.

Leikurinn í kvöld er hins vegar á Anfield, heimavelli Liverpool, og þar hefur Everton ekki tekist að sigra síðan í september 1999, 1:0, þegar Kevin Campbell skoraði sigurmarkið.

Liverpool hefur haft yfirhöndina í borgarslagnum síðastliðin áratug en síðast vann Everton í október 2010, 2:0 á Goodison Park, sem var fyrsti leikur Liverpool undir nýjum eigendum, FSG-hópnum frá Bandaríkjunum, sem eru enn eigendur félagsins.

Í spilaranum hér að ofan er stiklað á stóru um bítlaborgarslaginn.

Leikur Liverpool og Everton verður í beinni útsendingu á Símanum Sport. Leikurinn hefst klukkan 17.30 og hefst upphitun klukkan 17.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert