West Ham í Meistaradeildarsæti

Jesse Lingard skoraði annað mark West Ham í dag.
Jesse Lingard skoraði annað mark West Ham í dag. AFP

West Ham vann 2:1-sigur á Tottenham í hádegisleik ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í dag. Með sigrinum fór Lundúnaliðið í fjórða sæti deildarinnar sem gefur þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu næsta vetur.

Michail Antonio kom West Ham yfir strax á fimmtu mínútu eftir fyrirgjöf frá Jarrod Bowen og Jesse Lingard, sem heldur áfram að skora eftir komuna til félagsins, bætti við marki í upphafi síðari hálfleiks.

Gareth Bale lagði upp mark með hornspyrnu á 64. mínútu sem Lucas Moura skallaði í netið og eftir það reyndu gestirnir hvað þeir gátu til að kreista fram jöfnunarmark. Bale átti þrumuskot í þverslá og Heung-Min Son átti skot í stöngina í uppbótartíma en allt kom fyrir ekki.

David Moyes, knattspyrnustjóri West Ham, náði þar með sínum fyrsta sigri gegn kollega sínum José Mourinho og liðið er sem fyrr segir í 4. sæti með 45 stig, tveimur á undan nágrannaliðinu Chelsea og einu á eftir Manchester United og Leicester sem eiga leik til góða í kvöld. Tottenham er í 9. sæti með 36 stig og er að dragast aftur úr í baráttunni.

Michail Antonio skorar opnunarmarkið í Lundúnum í dag.
Michail Antonio skorar opnunarmarkið í Lundúnum í dag. AFP
Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

West Ham 2:1 Tottenham opna loka
90. mín. Heung-Min Son (Tottenham) á skot í stöng Darraðardans inn í vítateig, mikil barátta um boltann og ég sé ekki betur en að varnarmaður þrumi knettinum í Son og þaðan hrekkur boltinn í fjærstöngina áður en heimamenn hreinsa frá!
mbl.is