Ekki aðalmálið að sigra Liverpool

Carlo Ancelotti ræðir málin við Gylfa Þór Sigurðsson sem skoraði …
Carlo Ancelotti ræðir málin við Gylfa Þór Sigurðsson sem skoraði seinna mark Everton í 2:0 sigrinum. AFP

Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóri Everton, segir að það hafi vissulega verið sætt að sigra keppinautana og nágrannana í Liverpool á Anfield í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn en það sé ekki aðalmarkmið liðsins.

Sigur Everton var sá fyrsti sem liðið vinnur á Anfield frá árinu 1999 og sá fyrsti í öllum leikjum í ellefu ár.

„Okkar markmið er ekki að vinna Liverpool, okkar markmið er að leika í Evrópukeppni á næsta tímabili. Það er stóra málið. Ég skil vel að fólk sé ánægt með þetta, við erum virkilega ánægðir. Stuðningsfólk Everton á það skilið eftir 21 árs bið,“ sagði Ancelotti við Sky Sports.

„Þetta er mjög sérstakt en það er ekki mjög erfitt að ná upp fullri einbeitingu í svona nágrannaslag. Leikmennirnir voru virkilega einbeittir. Nú er aðalmálið að ná upp sömu einbeitingu í næsta leik, það verður flóknara.

Ef við teljum okkur hafa náð einhverjum árangri núna, þá er það alrangt. Þetta er gott augnablik en bara þrjú stig,“ sagði Ítalinn þrautreyndi.

mbl.is