Palace stal sigrinum

Jean-Philippe Mateta fagnar marki sínu fyrir Palace í kvöld.
Jean-Philippe Mateta fagnar marki sínu fyrir Palace í kvöld. AFP

Crystal Palace náði í þrjú stig nokkuð gegn gangi leiksins þegar liðið heimsótti Brighton í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld. Palace sigraði 2:1 en sigurmarkið kom á fimmtu mínútu í uppbótartíma. 

Crystal Palace komst reyndar 1:0 yfir með marki Jean-Philippe Mateta á 28. mínútu. Brighton var mun meira með boltann og skapaði sér miklu fleiri marktækifæri. Skilaði það jöfnunarmarki á 55. mínútu þegar Joel Veltman jafnaði. 

Belginn Christian Benteke skoraði sigurmarkið á laglegan hátt í uppbótartímanum. Andros Townsend gaf fyrir frá vinstri og Benteke tók boltann á lofti og náði að stýra honum í vinstra hornið. 

Þegar upp var staðið átti Palace ekki nema þrjú skot á markið en Brigton tuttugu og fimm. Ekki er hins vegar spurt að því þegar stigunum er úthlutað. 

Brighton er í 16. sæti með 26 stig og er fjórum stigum fyrir ofan fallsæti. Crystal Palace er í 13. sæti með 32 stig. 

mbl.is