Vonast eftir Jota gegn Chelsea

Diogo Jota féll strax vel inn í lið Liverpool.
Diogo Jota féll strax vel inn í lið Liverpool. AFP

Portúgalski sóknarmaðurinn Diogo Jota verður líkast til tilbúinn í slaginn á ný með Liverpool þegar liðið mætir Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu 4. mars.

Jota fór afar vel af stað með Liverpool í haust eftir að félagið keypti hann af Wolves fyrir 41 milljón punda. Hann meiddist á hné í leik í Meistaradeildinni 9. desember og hefur ekki spilað síðan, en það helst nánast í hendur við slæman kafla Englandsmeistaranna sem hófst um jólin og stendur enn.

The Telegraph segir í dag að Jota muni hefja æfingar með liðinu á ný á miðvikudaginn. Of snemmt sé að reikna með honum í leikinn við Sheffield United næsta sunnudagskvöld en raunhæft sé að búast við því að hann gæti spilað þegar Chelsea kemur í heimsókn á Anfield fimmtudagskvöldið 4. mars.

mbl.is