Draumaleikvangur Everton samþykktur

Everton verður ekki mörg ár enn á Goodison Park.
Everton verður ekki mörg ár enn á Goodison Park. AFP

Skipulagsráð Liverpoolborgar samþykkti í dag samhljóða umsókn frá Everton um að fá að byggja nýjan og glæsilegan knattspyrnuleikvang á Bramley Moore-hafnarsvæðinu í norðurhluta borgarinnar.

Málið er þar með komið í hendur ráðuneytis til endanlegrar úrvinnslu.

Nýi leikvangurinn á að rúma tæplega 53 þúsund manns í sæti og hann leysir af hólmi hinn sögufræga Goodison Park sem hefur verið heimavöllur Everton í rúmlega 128 ár, eða frá árinu 1892. Goodison Park rúmar ríflega 39 þúsund manns í sæti en þar var m.a. leikinn undanúrslitaleikur á heimsmeistaramótinu 1966. Þá lék enska landsliðið oft heimaleiki sína í meistarakeppni Bretlandseyja á vellinum á árunum 1895 til 1953.

Undirbúningsvinna fyrir byggingu nýja leikvangsins hefur staðið yfir í fimm ár en önnur staðsetning við ána Mersey var einnig í kortunum lengi vel.

Tölvumynd af nýja leikvanginum má sjá hér fyrir neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert