Líkti sigrinum við Floyd Mayweather

Leikmenn Manchester City fagna sigurmarki Raheem Sterling.
Leikmenn Manchester City fagna sigurmarki Raheem Sterling. AFP

Gary Neville, fyrrverandi fyrirliði Manchester United, hrósaði leikmönnum Manchester City í hástert eftir 1:0-sigur liðsins gegn Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Emirates-vellinum í London um síðustu helgi.

Það var Raheem Sterling sem skoraði sigurmark leiksins strax á 2. mínútu en þetta var þrettándi sigurleikur City í röð í deildinni.

City er nú með 10 stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar og virðist fátt geta stöðvað liðið þessa dagana.

„Það hefur verið magnað að fylgjast með þessum 1:0-sigrum City á leiktíðinni,“ sagði Neville í hlaðvarpsþætti sínum.

„Ég man þegar við í United vorum að vinna leiki 1:0 á útivelli í gamla daga. Þá bara negldum við boltanum fram á síðustu tíu mínútunum til þess að halda fengnum hlut.

City gerir það ekki. Þeir halda áfram að spila sinn leik, sama hvað tímanum líður, og þeir eru óhræddir við að spila út frá aftasta varnarmanni sem er aðdáunarvert.

City voru miklu betri í fyrstu þremur lotunum, kæfðu Arsenal frá fyrstu mínútu og unnu sig svo bara þægilega í gegnum restina af lotunum eins og Floyd Mayweather var vanur að gera í boxbardögum sínum,“ bætti Neville við en Mayweather er margfaldur heimsmeistari í boxi, vann fimmtíu bardaga og var ósigraður allan sinn feril.

mbl.is