Hættir Klopp á næsta ári?

Jürgen Klopp hefur stýrt liði Liverpool frá því í október …
Jürgen Klopp hefur stýrt liði Liverpool frá því í október 2015. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool í ensku úrvalsdeildinni, gæti látið af störfum hjá félaginu á næsta ári.

Það er þýski miðillinn Bild sem greinir frá þessu en Klopp hefur stýrt liði Liverpool frá því í október 2015.

Klopp er samningsbundinn Liverpool til sumarsins 2024 en Bild telur líkur á því að Klopp sé orðinn þreyttur á Englandi og þurfi á hvíld að halda.

Mikið hefur verið rætt og ritað um framtíð þýska stjórans eftir dapurt gengi liðsins á leiktíðinni en Klopp er sagður ósáttur með eigendur félagsins.

Klopp hefur ekki fengið að kaupa þá leikmenn sem hann hefur viljað kaupa og það hefur skapast ákveðin togstreita á milli hans og eigendanna eftir að hver miðvörðurinn á fætur öðrum heltist úr lestinni hjá Liverpool vegna meiðsla.

Undir stjórn Klopps hefur Liverpool orðið Englandsmeistari, Evrópumeistari og heimsmeistari félagsliða.

Þá greinir Bild einnig frá því að Klopp sé líklegastur til þess að taka við þýska landsliðinu eftir HM 2022 en Klopp hefur sjálfur gefið það út að hann ætli að taka sér frí frá fótbolta þegar hann lætur af störfum hjá Liverpool.

mbl.is