Beckham reyndi að hjóla í Ferguson

David Beckham og Sir Alex Ferguson eru mátar í dag.
David Beckham og Sir Alex Ferguson eru mátar í dag. AFP

Leikmenn enska knattspyrnufélagsins Manchester United þurftu að stíga á milli Davids Beckhams og Sir Alex Ferguson þegar upp úr sauð á milli þeirra í búningsklefa United eftir tap í ensku bikarkeppninni.

Ferguson greindi frá atvikinu í ævisögu sinni en sama ár gekk Beckham til liðs við Real Madrid frá uppeldisfélagi Manchester United.

Samband Beckham og Ferguson var orðið afar stirt á lokaárum Beckhams hjá United og að lokum var það skoski knattspyrnustjórinn sem skipaði forráðamönnum United að selja kantmanninn.

„Vinnuframlag Davids minnkaði mikið á lokatímabili hans hjá félaginu,“ skrifaði Ferguson í ævisögu sinni.

„Við vissum að umboðsmenn hans höfðu verið í sambandi við Real Madrid en það sem truflaði mig mest var vinnuframlag hans. 

David blótaði eftir tapleikinn í bikarnum og ég sparkaði í skóhrúgu sem lá á gólfinu fyrir framan mig þegar ég nálgaðist hann.

Einn skórinn fór beint í augað á honum og hann reyndi að hjóla í mig. Leikmenn liðsins þurftu að stíga á milli svo hann myndi ekki ráðast á mig. 

Ég skipaði honum að setjast niður og sagði honum að hann hefði brugðist mér og liðinu. Daginn eftir var atvikið komið á forsíður blaðanna og þá sagði ég stjórninni að selja David.

Um leið og leikmenn fóru að trúa því að þeir væru stærri en stjórinn þyrftu þeir að fara og það var tilfellið með David Beckham,“ bætti Ferguson við. 

mbl.is