Faðir Alissons drukknaði í Brasilíu

Alisson Becker hefur leikið með Liverpool frá árinu 2018.
Alisson Becker hefur leikið með Liverpool frá árinu 2018. AFP

Óvíst er hvort Alisson Becker, markvörður Englandsmeistara Liverpool í knattspyrnu, verði í leikmannahópi liðsins um næstu helgi þegar Liverpool heimsækir Sheffield United á Bramall Lane í ensku úrvalsdeildinni.

Faðir Alisson, José Becker, lést í gær þegar hann drukknaði í stöðuvatni í grennd við sumarhús sitt í suðurhluta Brasilíu.

Í gær barst lögreglu tilkynning um að hans væri saknað eftir að hann hafði stungið sér til sunds við uppistöðulón, nálægt bænum Rincao do Inferno.

Lík José Becker fannst í gærkvöldi en andlátið er ekki talið hafa borið að með saknæmum hætti að sögn lögregluyfirvalda í Brasilíu.

Alisson hefur verið einn besti leikmaður Liverpool frá því hann kom til félagsins frá Roma sumarið 2018 en hann hefur orðið Evrópumeistari, Englandsmeistari og heimsmeistari félagsliða með Liverpool.

Eldri bróðir Alisson, Muriel Becker, er samningsbundinn Fluminense í Brasilíu, en hann er 34 ára gamall.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert