Almarr orðinn leikmaður Vals

Almarr Ormarsson er orðinn leikmaður Vals.
Almarr Ormarsson er orðinn leikmaður Vals. Ljósmynd/Valur

Knattspyrnudeild Vals og Almarr Ormarsson hafa komist að samkomulagi um að Almarr leiki með félaginu næstu tvö árin.

Almarr hefur leikið 231 leik í efstu deild hér á landi og skorað í þeim 39 mörk. Þá hefur hann leikið 69 leiki í B-deild og gert níu mörk og skorað 13 mörk í 45 bikarleikjum.

Almarr, sem fagnar 33 ára afmælinu sínu í dag, hefur leikið með KA fjögur af síðustu fimm tímabilum og hefur verið fyrirliði liðsins síðustu árin en hann lék með Fjölni árið 2018. Þar áður lék hann með KR og Fram og varð bikarmeistari með báðum Reykjavíkurliðunum.  

Miðjumaðurinn lék á sínum tíma 20 leiki með yngri landsliðum Íslands og skoraði í þeim tvö mörk. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert