Henderson frá keppni fram á vor

Jordan Henderson fær aðhlynningu vegna meiðslanna í leiknum við Everton.
Jordan Henderson fær aðhlynningu vegna meiðslanna í leiknum við Everton. AFP

Englandsmeistarar Liverpool í knattspyrnu staðfestu fyrir stundu að fyrirliðinn Jordan Henderson hafi þegar gengist undir aðgerð vegna tognunar í nára.

Henderson þurfti að fara af velli í nágrannaslagnum gegn Everton vegna meiðslanna og nú liggur fyrir að hann verður frá keppni fram í apríl. Á heimasíðu Liverpool segir að engin tímasetning hafi verið sett á endurkomuna en ljóst sé að hann verði frá keppni framyfir landsleikjahléð sem er í lok mars. 

Hann missir þar með af í það minnsta fimm leikjum Liverpool, m.a. seinni leiknum gegn RB Leipzig í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar og leik liðsins gegn Chelsea í úrvalsdeildinni í næstu viku.

Þá verður Henderson fjarri góðu gamni í lok mars þegar England mætir San Marínó, Albaníu og Póllandi í þremur fyrstu leikjunum í undankeppni heimsmeistaramótsins.

Með Henderson á meiðslalista Liverpool eru Virgil van Dijk, Joel Matip, Joe Gomez og Fabinho.

mbl.is