Bale sýndi sínar bestu hliðar í stórsigri

Gareth Bale hafði ástæðu til þess að gleðjast í dag.
Gareth Bale hafði ástæðu til þess að gleðjast í dag. AFP

Tottenham Hotspur vann afar öruggan 4:0 sigur gegn Burnley í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Gareth Bale sýndi gæði sín í leiknum með því að skora tvö mörk ásamt því að leggja annað upp.

Leikmenn Tottenham gáfu umsvifalaust tóninn og var liðið komið yfir strax á annarri mínútu leiksins. Heung-Min Son átti þá lúmska fyrirgjöf af vinstri kanti inn á nærstöngina þar sem Bale kom aðvífandi, einn á auðum sjó, og potaði boltanum yfir línuna af stuttu færi.

Eftir stundarfjórðung tvöfaldaði Tottenham forystuna. Harry Kane fékk þá sendingu frá Bale og þrumaði einfaldlega knettinum upp í þaknetið, óverjandi fyrir Nick Pope í marki Burnley.

Þegar rúmur hálftími var liðinn af leiknum var Tottenham komið í 3:0. Sergio Reguilón átti þá góða fyrirgjöf af vinstri kanti, James Tarkwoski skallaði boltann frá en ansi stutt og beint í lappir Lucas Moura sem tók eina snertingu og kláraði frábærlega með föstu vinstri fótar skoti í bláhornið.

Staðan var því 3:0 í hálfleik.

Ekki leið á löngu þar til Tottenham var búið að skora fjórða markið. Á 55. mínútu skoraði Bale annað mark sitt í leiknum þegar hann fékk boltann á hægri kantinum frá Son eftir skyndisókn, hann lagði boltann fyrir sig á vinstri og skoraði með glæsilegu, þéttingsföstu skoti í stöngina og inn, sígilt Bale-mark.

Ekki var meira skorað og auðveldur sigur Tottenham því staðreynd. Sigurinn fleytir liðinu upp í áttunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar en Burnley er áfram í 15. sæti, fimm stigum frá fallsæti.

Jóhann Berg Guðmundsson var ekki í leikmannahópi Burnley í dag vegna meiðsla.

mbl.is