Markalaust í stórslagnum

Olivier Giroud rétt missir af boltanum í álitlegri stöðu.
Olivier Giroud rétt missir af boltanum í álitlegri stöðu. AFP

Chelsea og Manchester United gerðu markalaust jafntefli í stórslag helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

Fyrri hálfleikurinn var nokkuð bragðdaufur en næst komst Marcus Rashford því að skora fyrir Man Utd á 14. mínútu þegar hann átti þrumuskot beint úr aukaspyrnu sem Edouard Mendy í marki Chelsea þurfti að kýla út í teiginn.

Í kjölfarið vildu leikmenn Man Utd fá dæmda vítaspyrnu á Callum Hudson-Odoi, sem virtist sannarlega handleika knöttinn en eftir að hafa skoðað atvikið í VAR skjánum ákvað Stuart Attwell dómari að dæma ekkert.

Hudson-Odoi komst svo næst því að skora fyrir Chelsea á 21. mínútu þegar þrumuskot hans á lofti eftir gott samspil við César Azpilicueta fór rétt framhjá markinu.

Seint í fyrri hálfleiknum komst Olivier Giroud nálægt því að skora þegar hann rétt missti af fastri fyrirgjöf Hudson-Odoi

Markalaust var því í hálfleik.

Síðari hálfleikurinn var öllu fjörugri, í það minnsta til að byrja með, þar sem liðin skiptust á að eiga álitlegar sóknir og nokkur hættuleg langskot.

Ekkert bólaði þó á mörkunum og þurftu liðin því að lokum að sættast á jafnan hlut.

Man Utd er áfram í öðru sæti deildarinnar, 12 stigum á eftir grönnum sínum í Manchester City. Chelsea er áfram í fimmta sætinu, einu stigi á eftir West Ham United í fjórða sætinu.

Victor Lindelöf og Mason Mount í baráttunni í leiknum í …
Victor Lindelöf og Mason Mount í baráttunni í leiknum í dag. AFP
Chelsea 0:0 Man. Utd opna loka
94. mín. Leik lokið Leiknum lýkur með markalausu jafntefli.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert