„Held að hann hafi ekki vitað hvað hann var að gera“

Lewis Dunk ræðir málin við Lee Mason dómara eftir að …
Lewis Dunk ræðir málin við Lee Mason dómara eftir að hann dæmdi mark Dunk af í gær. AFP

Lewis Dunk, fyrirliði Brighton & Hove Albion, var ekki sérlega sáttur við Lee Mason dómara eftir að hann dæmdi af mark sem Dunk skoraði í 0:1 tapi gegn West Bromwich Albion í gær.

Dunk skoraði beint úr aukaspyrnu á 29. mínútu, þegar WBA var komið yfir, eftir að Mason hafði blásið í flautu sína. WBA var enn að stilla upp vegg sínum og Sam Johnstone í marki liðsins virtist ekki tilbúinn og því blés Mason aftur í flautu sína.

„Ég sagði við dómarann: „Má ég taka spyrnuna?“ Hann blés í flautuna og ég tók hana. Af hverju kemur hann ekki og talar við fjölmiðla eins og ég? Þeir gera það aldrei og fela sig í sinni vernduðu kúlu,“ sagði Dunk í samtali við Sky Sports eftir leik í gær.

Mason virtist ekki almennilega vita hvað hann ætti að gera þar sem hann dæmdi markið fyrst af, gaf það svo eftir mótmæli Brighton-manna en dæmdi það svo af að nýju eftir að hafa hlaupið að VAR-skjánum. Ástæðan sem var gefin var sú að seinna flaut Mason hafi komið áður en boltinn fór yfir línuna.

„Ég held að hann hafi ekki vitað hvað hann var að gera. Hann gaf markið. Af hverju gaf hann það? Ég skil ekki af hverju VAR blandaði sér í málið,“ bætti Dunk við.

Spurður um hvort honum hafi þótt Mason missa tökin á leiknum sagði Dunk: „Já hann gerði það. Það er staðreynd.“

mbl.is